FORGOT YOUR DETAILS?

Umhverfið

Eyjafjallajökull

EyjafjallajökullEyjafjallajökull er fimmti stærsti jökull Íslands. Undir jöklinum er eldkeila sem hefur gosið fjórum sinnum síðan land byggðist, fyrst árið 920, þá 1612, 1821 og 2010. Öll þessi gos hafa verið frekar lítil. Þegar gaus árið 1821 stóð gosið til ársins 1823. Gos hófst svo á Fimmvörðuhálsi þann 20. mars 2010 austan við Eyjafjallajökul. Þann 14. apríl 2010 hófst gos undir jökulhettunni.

Hekla

HeklaHekla er án nokkurs vafa þekktasta fjall Íslands og ekki er hægt að segja annað en hún beri þann titil með miklum sóma. Hún er eitt nafntogaðasta fjall í Evrópu og hefur í aldanna rás borið nafn Íslands út um gjörvalla heimsbyggð. Hekla hefur spúið eld og eimyrju yfir landið og íbúa þess frá ómuna tíð og ekkert bendir til þess að hún muni láta af þeim ósóma á komandi árhundruðum. Fyrr á öldum töldu menn um gjörvalla Evrópu fjallið vera einn af inngöngum helvítis og jafnvel helvíti sjálft. Stundum varð hinn eilífi vítiseldur það magnaður að eldurinn náði til yfirborðs og stóð þá eldstrókurinn upp úr Heklugjá.

Oddi á Rangárvöllum

Oddi á RangárvöllumOddi er bær og kirkjustaður á Rangárvöllum í Rangárvallasýslu. Bærinn stendur á oddanum sem myndast á milli Ytri- og Eystri-Rangánna og Þverár, þar sem hún rennur saman við Ytri-Rangá og ber því nafn með rentu. Þar hefur verið kirkja síðan í öndverðri kristni. Þar bjó Sæmundur fróði Sigfússon og afkomendur hans eftir hann í tvær aldir og nefndust þeir Oddaverjar. Í Odda hafa verið margir frægir prestar, þeirra frægastur er Sæmundur fróði Sigfússon. Aðrir þekktir prestar voru til dæmis Matthías Jochumsson um tíma á 19. öld og Arngrímur Jónsson um tíma á 20. öld

Gjáin

GjáinGjáin er gljúfur í Þjórsárdal með mörgum vatnsuppsprettum og fossum. Í Gjánni rennur Rauðá sem sprettur upp í Rauðárbotnum milli Sandafells og Fossheiðar, miklu ofar á afréttinum. Hverfur hún síðan niður í sandinn á Hafinu svokallaða og kemur fram úr jörðinni aftur í Gjánni. Áður en Búrfells- og Sultartangavirkjanir voru byggðar, flæddi Þjórsá stundum yfir Hafið og niður í Gjána svo Rauðá (og Fossá) urðu stundum mórauðar í leysingum.
TOP